21/01/2018

Síðasta vélin

Eins og margar húsmæður þarf  ég að sinna mörgum húsverkum, ég er þó heppin að eiga góðan maka sem gerir alveg rosalega mikið af þeim og stundum meira. Móðir mín var rosalega dugleg og skipulögð og hélt heimilinu alltaf hreinu og fínu og það var ekki að sjá að það bjuggu 5 börn á því. Og þegar það kom að þvottinum þá þvoði hún stundum tíu vélar á dag og braut allt saman og gekk frá því á sinn stað. Ég skil hreinlega ekki hvernig hún fór að þessu, því að ég sjálf get þetta ekki en hún hefur sagt það í dag að hún vildi að hún hefði lært að slaka aðeins á. Því það er sama hvaða húsverk það er, þau koma alltaf aftur og aftur. Svo er klukkan orðinn tíu að kvöldi og þér finnst þú búin að gera ekkert annað en að sinna húsverkum en samt eru enn diskar í vaskinum, hlutir sem er ekki á réttum stað og síðast en ekki síst stór þvottahrúga inn í þurrkara.

Þó svo ég sé ekki stöðugt að þvo þvott þá sé ég alltaf til þess að það séu til hrein föt og handklæði fyrir alla í heimilinu. Það hefur þó komið fyrir að öll handklæði séu skítug og börnin þurfa að fara í bað og ekki tími til að þvo handklæði. Þá reyni ég að redda mér með því að nota þurrkhandklæði (þessi til að þurrka hendurnar) og ef þau eru ekki til þá er bara ekkert bað það kvöldið. Ég ólst upp við slíkt og hef alltaf verið með sér handklæði til þess að þurrka hendur eftir handþvott, fyrir mér er það nauðsyn en það eru ekki allir sem nota svona. Ég viðurkenni það samt að ég er enginn þvotta sérfræðingur, ég t.d. hef ekki þann metnað í að strauja allt en t.d. gerði mamma mín það. Talandi um handklæði, þá erum við með mjög mjóan skáp fyrir þau heima hjá okkur og ég var alltaf í basli við að koma þeim öllum inn. Þar til ég prufaði að brjóta saman, rúlla þeim upp, ég veit algjört idiot proof en það breytti öllu saman og ég skil hreinlega ekki af hverju ég hafði ekki fattað það fyrr. Ég er frekar róleg þegar það kemur að þvotti, enda veit ég tómar þvottakörfur eru bara til í ævintýrum, enda er þvotturinn hringrás sem endar aldrei og það er ekkert til sem heitir síðasta vélin.

You may also like...

Close