13/04/2018

Að ferðast erlendis með ung börn

Nú er sumarið að koma (þrátt fyrir veður) og eflaust margar fjölskyldur að skipuleggja frí og oftar en ekki frí erlendis. Og þess vegna ætla ég að segja frá minni reynslu þegar ég fór út fyrir tveimur árum og hvað mér þótti mikilvægast varðandi flug ofl.

Þegar ég átti bara tvö börn (já ég veit bara),  þá fórum við fjölskyldan til spánar, sumarið 2016. Strákurinn var þá 18 mánaða og stelpan 4 mánaða og það var margt sem þurfti að huga að fyrir ferðina. Við vorum spennt en líka mjög stressuð að þetta myndi ekki vera neitt frí og vorum sérstaklega stressuð fyrir fluginu. Ég reyndi að lesa mig til um ráð varðandi hvernig væri best að hátta fluginu með svona ung börn og það sem ég komst að er að það er nr. 1, 2 og 3 að vera með nóg að narta í og nóg að drekka, svo kodda og teppi og einhverja afþreyingu. Við vorum með burðarpoka fyrir stelpuna okkar sem við notuðum að hluta til í fluginu. Og sú yngri var á pela svo við tókum nóg af því með í flugið og líka nóg út, því við vorum ekki viss hvort þessi tegund þurrmjólkar væri til á spáni. Og viti menn, þetta gekk bara rosalega vel og það heyrðist ekki í þeim allt flugið og þau sváfu meira að segja helminginn af því.

Við vorum heppinn að tengdó komu með út, svo það voru nóg af auka höndum ef eitthvað kæmi upp á. Þau pössuðu alveg fyrir okkur klukkutíma hér og þar og svo eitt kvöldið svo við kæmumst út bara tvö saman. Við tókum tvíbura/systkina kerru með út sem ég myndi telja vera algjör nauðsyn þegar ferðast er með svona ung börn. Og ömmustólinn tókum við með líka sem að ég var ekki viss hvort kæmi sér að góðum notum en svo notuðum við hann mikið, t.d. á sundlaugasvæði hótelsins og uppá herbergi. Strákurinn okkar sem var 18 mánaða á þessum tíma, vildi að sjálfsögðu labba eitthvað líka sem hann gerði og við vorum með svona beisli en það gekk ekki nógu vel því að hann var alltaf á hlaupum og oft við það að hrasa fram fyrir sig. Ári seinna sá ég öryggisarmband sem ég ætla pottþétt að prófa næst þegar við förum út. Ég veit hins vegar ekki hvort þetta fáist hérlendis né hvort þetta sé CE merkt.

Hótelið sem við gistum á var þriggja til fjögurra stjarna hótel og stóð undir því. Það er tvennt sem ég get sett út á og það er að rimlarúmin voru ekki alveg upp á sitt besta og þrátt fyrir að botninn var í lægstu stillingu var það ekki nógu hátt og því ekki eins öruggt að mínu mati. Svo vorum við upp á sjöundu hæð og með svalir sem voru með engan lás eða krók fyrir öryggi barnanna.

Börnin mín nota MAM snuð og vilja einungis þau snuð. Við tókum með þrjú snuð út, við héldum að eitt hafi týndst upp á keflarvíkurflugvelli ásamt snuddubandi en svo kom í ljós að það gleymdist í bílnum. Og þá voru þau tvö eftir og annað snuðið týndist úti eftir eina kvöldgönguna. Og það var ekki til svona snuð úti, alla vaga fundu við það ekki. Og maðurinn minn fór út klukkan rúmlega ellefu að kvöldi til að leita að snuðinu og hann fann það! Hann sagði reyndar við mig að þetta myndum við ekki segja neinum, að við hefðum látið barnið fá snuð sem hafði legið í götunni í einhvern tíma og já, við suðum það!

Sólarvörn er eitthvað sem er mikilvægt fyrir alla og þá sérstaklega fyrir börn, því ef barn brennur illa er nokkurn veginn hægt að segja að fríið sé ónýtt. Ég og maki minn pössuðum okkur rosa vel á þessu og bárum sólarvörn á þau mörgum sinnum á dag. Einnig reyndum við að hafa þau í skugga eins og hægt var og svo vorum við með auka sólhlíf á kerrunni fyrir yngra barnið. Við vorum með 50 stiga sólarvörn fyrir þau þó svo að hitinn fór aldrei svo hátt, því við vildum vera alveg örugg. Svo pössuðum við líka að þau drykkju nóg yfir daginn, því ekki vill maður að þau fái sólsting elsku greyin.

Og ég held ég sé ekki að gleyma neinu en í heildina litið var ferðin mjög góð í alla staði.

You may also like...

Close