16/05/2018

Pabbinn er að passa

Ég ólst upp við það að mamma var heimavinnandi og pabbi útivinnandi, þar af leiðandi sá mamma um öll heimilisverk og hina skrilljón hlutina sem tengjast því að vera heimavinnnandi. Pabbi minn vann langan og erfiðan vinnudag en þegar hann var ekki að vinna, eyddi hann tímanum með okkur systkinunum. Ég kem úr nokkuð stórri fjölskyldu eða nánar tiltekið sjö manna og þetta var þeirra samkomulag. Í dag eru breyttir tímar og orðið algengara að báðir foreldrar séu útivinnandi, oftar en ekki vegna fjárhagurinn býður ekki upp á annað. Þetta finnst mörgum foreldrum erfitt þar sem þau sjá börnin ekki eins oft og þau myndu vilja. Ekki það að ég vilji að konur séu bara heima í eldhúsinu og karlarnir úti að vinna, enda er árið 2018 ekki 1950. Og í dag ríkir meira jafnrétti á mörgum heimilum, þar sem báðir foreldrar sinna foreldrahlutverkinu og heimilsverkum jafnt og það finnst mér frábært! Hins vegar eru mæður oft taldar vera stærri hlutinn af foreldrahlutverkinu sem að mér finnst frekar leiðinlegt, ekki bara gagnvart mæðrum heldur feðrum líka. Eins og þeir skipti ekki jafn miklu máli í uppeldi barnanna? Og sérstaklega þeir feður sem eru alveg jafnir mæðrunum í foreldrahlutverkinu þ.e. sinna börnunum alveg jafn mikið. Svo eru margir sem tala um hversu heppnar mæður eru að eiga svona góðan barnsföður sem er allt í góðu lagi en bíddu eru þeir ekki jafn heppnir að eiga svona góða barnsmóður. Og þá að hugtakinu “Pabbinn er að passa” Ég hef nú lent í því að vera spurð “Já ok og er pabbinn þá að passa?” og mér finnst það frekar fyndið heldur en eitthvað annað og yfirleitt svara ég bara mjög opið út “Nei, hann er ekkert að passa sín eigin börn” og þá hefur fólk sagt “Æj já, þú veist hvað ég meina” Og svo hlær maður bara að þessu. Eigum við ekki bara að hætta þessari vitleysu og halda áfram að styðja hvort annað og vera góð við hvort annað.

Því það er alveg sama hvort þú sért mamma eða pabbi, bæði eru eitt það mikilvægasta í lífi barnsins/barnanna.

 

You may also like...

Close