27/10/2018

Að missa barn á meðgöngu

Ég veit ekki hvar ég á að byrja, ætli ég byrji ekki bara frá byrjuninni.

Þegar ég komst að því að ég væri ófrísk af fjórða barninu var það svoldið mikið sjokk, því við höfðum ekki planað að eignast annað barn strax eða bara að eignast annað barn yfir höfuð. Við ræddum valkostina og á endanum komumst við að því að það kæmi ekkert annað til greina en að eiga barnið. Og ég held það spilar svoldið mikið inn að við eigum 3 börn fyrir, þá er erfiðara að hugsa eitthvað annað en að eiga barnið. Þessi meðganga byrjaði eins og allar hinar, með tilheyrandi ógleði og uppköstum og það leið ekki langur tími þangað til að ég var komin aftur á zofran. En zofran er lyf sem notað er fyrir ógleði hjá krabbameinsveikum en er í sérstökum tilföllum notað við ógleði hjá ófrískum konum. Ég er s.s. með svoldið sem heitir hyperemesis gravidarum sem að er í stuttu máli sjúkdómur sem ófrískar konur lenda í sem orsakar það að þær léttast mikið, upplifa sólarhrings ógleði, fá mikil uppköst, meiri hlutan eða alla meðgönguna.

Þegar ég var komin rúmlega 19 vikur byrjaði ég að fá óvenjuleg einkenni sem að voru óeðlileg útferð og samdrættir með verkjum. Það liðu bara nokkrir dagar þangað til ég hafði samband við ljósmóður í mæðraverndinni. Mér var boðið að koma í skoðun, þ.e. að fá að hlusta á hjartsláttinn, þetta var á mánudegi, 14.maí.2018.

Þriðjudagur 15.Maí.2018

Ég hef samband við meðgöngu- og sængurlegudeildina og segi frá einkenninum mínum og verkjunum sem voru búnir að vera meira og minna allan daginn. Mér er boðið að koma í skoðun og er skoðað upp á leghálsinn og tekið strok sem þau sögðu að tæki alla vaga 2 daga að koma niðurstöður úr. Einnig var gerð sónarskoðun og þar leit allt eðlilega út, barnið var að hreyfa sig og með flottan hjartslátt. Ég var svo send heim.

Miðvikudagur 16.Maí.2018

Ég átti bókaðan tíma í 20 vikna sónar og fór að sjálfsögðu í hann. Þar var gerð hin hefðbundna skoðun og allt leit vel út og ég fékk að vita að við ættum von á lítilli stúlku. Og við vorum svo glöð og spennt og full af tilhlökkun. Við keyptum heimferðasett (eins og ég kalla það) beint eftir sónarinn, enda höfðum við gert það með hin 3 börnin.

Fimmtudagur 17.Maí.2018

Samdrættir með verkjum voru farnir að ágerast og mér leið alls ekki vel. Ég hafði ekki samband við kvennadeildina, því ég var í skoðun deginum áður og vegna þess að ég fékk alltaf þetta viðmót að ég væri bara móðursjúk og ætti bara að slaka á.

Föstudagur 18.Maí.2018

Þarna var útferðin orðin mjög mikil og verkirnir mjög slæmir, ég hef samband við meðgöngu- og sængurlegudeild. Ég sagði þeim frá einkennunum og verkjunum og var spurð þessar rútínu spurningar: “Ertu búin að vera mikið að í dag” “Ertu búin að hafa hægðir” “Hvað ertu gengin langt” o.s.f.r. Svo þegar þau sáu að ég hafði verið í skoðun á þriðjudeginum og í sónar á miðvikudeginum, kom annað hljóð á þau. Var sagt að bíða og sjá en ég sagðist vilja láta skoða mig, því þetta gæti ekki verið eðlilegt. Ég fékk skoðun í gegn með því að vera ákveðin. Ég fer í skoðun og er sama gert og á þriðjudeginum, legháls skoðaður, sónarskoðun og allt í fínu lagi og einnig var tekin þvagprufa til að athuga merki um þvagfærasýkingu en svo var ekki. Svo fékk ég niðurstöðurnar úr strokinu og var sagt að ég væri með væga sveppasýkingu og þess vegna væri útferðin svona. Ég sagðist nú hafa fengið svoleiðis áður og hún hafi aldrei verið svona. Ég var svo send heim.

Laugardagur 19.Maí.2018

Verkirnir héldu áfram, mér leið líka eins og ég væri lasin en ég var vön að vera meira og minna slöpp á meðgöngu. Ég hringdi enn og aftur upp eftir og var strax sagt að ég var í skoðun í gær og það hafði ekkert fundist að þá. Svo sagði hún að það væri alveg eðlilegt að vera með samdrætti fyrr hjá konum sem að ættu börn fyrir. Ég sagðist nú alveg vita það og sagði “Já, ég er ekki bara með samdrætti, ég er með samdrætti með miklum verkjum, eins og sterkir fyrirvaraverkir” Hún sagði nú ekki mikið við því og ráðfærði sig við lækni sem að taldi ekki þörf á að ég kæmi. Einnig var mér sagt að það væri svo mikið að gera og það væri eiginlega ekki hægt að taka við konum nema það væri bráðatilfelli. Ég gaf samt ekki eftir og fór upp eftir og þar var ég látin bíða á biðstofu í rúman klukkutíma og var svo skoðuð. Og á meðan ég beið duttu verkirnir niður. Ég var skoðuð enn og aftur og alveg sama, allt leit eðlilega út og ég send heim.

Sunnudagur 20.Maí.2018

Verkirnir héldu áfram og voru svona 10 sinnum sterkari heldur en á föstudeginum. Ég hélt aftur að mér allan daginn með að hringja, því ég var farin að trúa því sem þau á kvennadeildina voru alltaf að segja. En þegar leið á kvöldið, rétt fyrir miðnætti gefst ég upp og hringi upp eftir. Þar fékk ég sama viðmót og á laugardeginum, var sagt að þær myndu ráðfæra sig við deildarlækninn og hringja svo aftur. Þegar hringt var aftur, sögðu þau mér að ég gæti alveg tekið verkjatöflur og beðið í smástund en að ég mætti koma ef ég teldi mig þurfa þess. Ég ákvað að fara og það var alveg það sama nema þau tóku blóðprufu og sögðu mér að niðurstöðurnar kæmu seinna í nótt eða fyrramálið. Ég var svo enn og aftur send heim, um miðja nótt!

Mánudagur 21.Maí.2018

Á þessum degi var enginn vafi hjá mér lengur að eitthvað væri að, því verkirnir voru ekki bara eins og fyrirvaraverkir og um kvöldið voru þeir orðnir eins og hríðarverkir. Ég hringi upp eftir, eina ferðina enn og segi hreint út að þetta séu eins og hríðarverkir, þá er sagt við mig “Sko, konur eru nú ekki að fá hríðarverki á þessum tíma” og ég svara “Nei, ég veit!” Og sú ljósmóðir talaði svo niður til mín, að ég þyrfti nú bara að slaka á, því þetta væri líklegast ekki neitt. Ég hélt áfram að segja við hana með tárin í augunum að það væri eitthvað að, að þetta ætti ekki að vera svona. Hún segir mér að bíða aðeins og hringja aftur ef ég skildi versna. Þarna var ég búin að vera með reglulega hríðarverki, 3 mín á milli í að ganga 3 klukkutíma! Ég legg frá mér síman og fer að hágráta, ligg bara máttfarin upp í rúmi, uppgefin á líkama og sál og að sjálfsögðu skíthrædd um litla barnið mitt. Maðurinn minn kemur svo inn og huggar mig. Ég hringi svo upp á fæðingarvakt og fór strax aftur að hágráta, konan í símanum skildi mig varla því ég grét svo mikið. Þegar ég loksins næ að koma út úr mér hvað væri að þá sagði hún blíðlega “Elskan mín, þú verður bara að hringja aftur í meðgöngu- og sængurlegudeildina því við sinnum ekki konum sem eru ekki komnar lengra. Ég hringi aftur í meðgöngu- og sængurlegudeildina og tala þar við sömu ljósmóður og síðast. Hún segir mér að læknirinn teldi ekki þörf á að ég kæmi í skoðun. Ég sagði við hana að mér væri alveg sama því ég væri að koma hvort sem er og þá segir hún “Ég meina, ef þú telur þig þurfa koma þá kemur þú bara” og ég gleymi aldrei þessum leiðindatón í röddinni hennar.

Þegar ég og maðurinn minn komum á kvennadeildina, tók sú ljósmóðir sem ég hafði talað við í síman við okkur. Hún byrjaði á því að hitamæla mig, enginn hiti eins og öll hin skiptin, samt leið mér eins og ég væri með hita og ég sagði henni það. Næst skoðaði hún mig og ég sá það strax að hún fann eitthvað athugavert. Ég sagði “hvað, er leghálsinn búin að styttast eða?” og hún svaraði “Já, mér finnst hann alla vaga ekkert vera neitt rosalega langur” Svo fór hún strax fram og náði í tvo lækna, einn sérfræðing og deildarlækninn. Þau skoðuðu mig með sónartæki og ég sem var búin að googla mikið um leghálsa ofl í gegnum mínar meðgöngur, sá strax að hann var mjög stuttur. Þarna mældist hann 1,5 cm langur og svo sást vökvi inn í leginu. Læknarnir settust niður og ég sá það strax að málið var grafalvarlegt. Þau létu mig vita að nú væri staðan þannig að leghálsinn væri það stuttur að ég væri komin af stað í fæðingu og að þessi vökvi bennti til þess að ég væri með sýkingu í leginu. Næst var ég lögð inn með sýklalyf í æð og fékk lyf til að reyna stoppa samdrættina. Einnig var mér sagt að niðurstöðurnar úr blóðprufunni benntu til þess að ég væri með einhvers konar sýkingu. Þau tóku þvagprufu til þess að athuga hvort ég væri með þvagfærasýkingu, því það gæti stundum valdið samdráttum. Læknarnir voru samt ekki bjartsýnir og okkur var svo sagt að ég myndi líklegast enda á því að fæða barnið og þá spurði ég “hvað væri þá hægt að teygja það lengi, nokkrar vikur eða hvað?” og þá fékk ég svar sem gaf hjartanu auka slátt “nei elskan mín, á næstu dögum.” og ég vildi ekki trúa því en ég vissi að barnið myndi aldrei lifa það af og vissi að það yrði ekki reynt að bjarga því. Þarna var ég komin 21 vikur og þau reyna að bjarga börnum sem fædd eru 22 vikur og 5 daga eða seinna. Næsti sólarhringur var fullur af von, ótta, kvíða og sorg.

Þriðjudagur 22.Maí.2018

Lyfið sem átti að stoppa samdrættina var ekki að virka nógu vel, sýkingin var enn svo mikil en litla stúlkan okkar var sprellifandi og heilbrigð. Við vorum bæði illa sofin og náðum loksins að leggja okkur aðeins seinni partinn þennan dag. Þegar ég vaknaði var legvatnið farið, við kölluðum á ljósmóður sem var mjög yndisleg eins og flestar þarna. Hún kemur og tekur í hendina á mér og segir  auðmjúklega að nú myndi fæðing fara af stað á næstu klukkutímum. Frá þessari stundum varð ég dofin, svo dofin að ég grét ekki og sýndi lítil sem engin svipbrigði. Inn í mér var ég hágrátandi, öskrandi og hreinlega í rústi. Ég man þegar ég var að fæða hana, vitandi að hún væri að deyja að ég sagði aftur og aftur “Hættu, hættu, hættu” og ég var ekki að segja ljósmóðurinni að hætta né manninum mínum, heldur langaði mig bara að þetta myndi hætta. Það er skrítið en fyrstu tilfinningarnar sem ég fann fyrir þegar ég sá hana voru ást og gleði. Ljósmóðurinn tók hana fram og bjó svo fallega um hana. Svo þegar hún kom með hana til okkar og ég fékk hana í fangið, fann ég hana hreyfa sig og ég í mínu ástandi fór að kalla “hún er að hreyfa sig, hún er enn lifandi”

You may also like...

Close